138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort eðlilegt sé að leita eftir skriflegum lögfræðiálitum í þessu sambandi, hefur það verið gert af miklu minna tilefni. Það hefur verið farið fram á lögfræðileg, skrifleg álit m.a. út af stjórnskipulegum þáttum af miklu minna tilefni en þessu. Ég ætla ekkert að vísa í þann fund í fjárlaganefnd sem ég sat ekki og upplýsingar af honum hafa verið nokkuð misvísandi. Ég ætla því ekkert að tjá mig um þann fund.

Ég tel hins vegar eðlilegt, hvað sem líður umræðu manna í fjárlaganefnd á þriðjudaginn, fullveldisdaginn, að farið verði fram á að lögð verði fram skrifleg lögfræðiálit um spurningar sem varða stjórnarskrána til þess að hjálpa þingmönnum að taka eins upplýsta ákvörðun í þessu máli og hægt er og til þess að auðvelda þingmönnum að færa fram rök og gagnrök í umræðum hér í þinginu, sem er okkar hlutverk.