138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir kröftuga og einbeitta ræðu sem fjallaði að stóru leyti um þær skuldbindingar sem Icesave-samningurinn bindur þessa þjóð í.

Það kom líka fram í máli hv. þingmanns að það hefði verið erfitt að fá stjórnarþingmenn hér upp í pontu til þess að halda ræður og rökstyðja af hverju við eigum að fara þessa leið. Það hefur þó komið fram að stjórnarliðar telja að það eigi einfaldlega að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir og þeir telja að málið sé útrætt. Þá langar mig að velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort hann sé því sammála að öll mál séu fullrædd og hvort að á síðustu dögum og vikum hafi verið að koma fram nýir hlutir sem ekki hefur verið fjallað um efnislega í nefndum þingsins, eins og til að mynda þetta atriði með stjórnarskrána. Það er nauðsynlegt að það liggi fyrir skrifleg greinargerð eins og kom fram í ræðum áðan hjá hv. þingmönnum.

Einnig hefur verið rætt um hugsanlega stórkostlega mismunun á jafnræði varðandi vexti innlánstryggingarsjóðanna. Og síðast í dag hefur það komið í ljós að skuldsetning þjóðarinnar samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gæti verið umtalsvert hærri en 310%, sem rætt hefur verið um. Þá fer maður að velta fyrir sér hvort við séum hreinlega í stakk búin til þess að geta greitt allar þessar skuldir, hvort ekki sé nauðsynlegt að það liggi fyrir hverjar þær séu. Því langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann telji ekki að það sé nauðsynlegt að í staðinn fyrir að reyna að fara fram með þessa efnislegu umræðu úr ræðustól (Forseti hringir.) sé málunum vísað í nefndir (Forseti hringir.) og þar fari efnisleg umræða fram.