138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er ég þeirrar skoðunar að það sé ótrúlegt að í þessu margumrædda máli, sem hefur verið virkilega vel skoðað eins og af fjárlaganefnd í sumar, skuli enn á ný og eiginlega stöðugt vera að koma upp nýir hlutir og nýir fletir sem gera það að verkum að mínu mati að nauðsynlegt sé að taka málið til efnislegrar skoðunar í nefndum þingsins áður en lengra er haldið. Ég hef rökstutt það og tekið upp nokkra punkta sem hafa komið fram á síðustu vikum og dögum, eins og jafnræði vegna vaxta á lánum til innlánstryggingarsjóðanna og eins þetta stjórnarskráratriði sem mönnum hefur verið tíðrætt um sem ég held að væri hægt að útkljá með því að taka það fyrir með skriflegri greinargerð, ef menn treysta sér til þess.

Það kom líka fram í dag í ræðu og fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann spurði að því hvort fjármálaráðherra hefði vitneskju um það að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem væru hér á landi þessa dagana hefðu sífellt vaxandi áhyggjur af því að skuldabyrði íslensku þjóðarinnar væri meiri en hún hefði áður verið talin og var þó nóg samt. Í svari hæstv. fjármálaráðherra kom fram að hann hafði engar slíkar upplýsingar undir höndum og taldi reyndar í ræðu fyrr í vikunni að þetta ár mundi enda á mun bærilegri hátt en upphaflega var stefnt að, og jafnframt að Ísland ætti sóknarfæri á mörgum sviðum sem gerði það að verkum að aðstæður okkar til framtíðar væru öfundsverðar í augum annarra þjóða. Því er svolítið sérkennilegt að núna undir kvöld skuli birtast á fréttavefnum mbl.is tvær fréttir — þar sem annars vegar er reyndar vitnað til viðtals við áðurnefndan hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hins vegar hv. þm. Þór Saari sem hafa verið á fundum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — þar sem ekki er hægt að sjá annað af fréttaflutningnum en að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verulegar áhyggjur og telji að skuldabyrðin sé jafnvel 350%, eins og segir í frétt á mbl.is að þeir hafi heimildir um.

Þá er rétt að rifja upp að fyrir einu ári síðan var talið, reyndar var sagt að um það væru mjög miklar efasemdir hvort þetta væru réttar tölur þar sem allt var að hrynja og enginn vissi nákvæmlega hvar við stæðum, að skuldsetning þjóðarinnar og þjóðarbúsins væri um 160% af vergri landsframleiðslu. Síðar kom í ljós í sumar — og þá var reyndar sagt, svo ég fari yfir það, að ef skuldirnar færu yfir 240% yrðu þær klárlega ósjálfbærar — að þær voru umtalsvert hærri, 250 eða 300%. Við fórum þá á fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þingmenn Framsóknarflokksins, og spurðum hverju þetta sætti og hvort ekki væru einhver mörk á þessu. Í fréttinni sem höfð er eftir Sigmundi Davíð kemur jafnframt fram það sama og landstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sagði okkur í sumar að það væri einfaldlega þannig að einu sinni hefðum við hugsanlega getað staðið undir 160%, núna gætum við staðið undir einhverju meiru og það væri einfaldlega gert með þeim hætti að við yrðum að herða gjaldeyrishöftin enn meira. Við yrðum að hækka skattana, við yrðum að draga verulega meira úr ríkisútgjöldunum, við yrðum að minnka innflutninginn enn frekar og auka útflutninginn og þannig gætum við greitt meira.

Ef það er tilfellið að skuldirnar séu orðnar enn meiri, jafnvel 350%, þá er spurning hvort sama aðferðafræðin gildi áfram, að það sé enn hægt að þrengja gjaldeyrishöftin, enn hægt að hækka skatta, enn hægt að skera meira niður, enn hægt að draga úr innflutningi og auka útflutning og þar með búa til nauðsynlegan gjaldeyri svo við getum staðið undir þessum skuldum. Það hlýtur að koma að því, og við höfum reyndar haft af því áhyggjur í langan tíma, framsóknarmenn, að þeim skurðarpunkti verði náð að ekki sé hægt að leggja meiri byrðar á fólkið í landinu, að það sé einfaldlega búið að taka þann kraft úr samfélaginu sem gerir það að verkum að samfélagið sé sjálfbært og búi til verðmæti og þar með tekjur til ríkissjóðs eða þjóðarbúsins sem gerir það að verkum að við getum staðið undir öllum þessum skuldum. Því finnst mér athyglisvert að tala um það hér að þetta skuli ekki hafa legið fyrir hjá hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni fyrr í dag.

Ég vil líka segja að ef það er tilfellið eins og hann fór yfir skuldsetninguna, að hún væri miklu jákvæðari — ef við skiptum henni upp væru ákveðnir þættir sem tengdust erlendum eignarhaldsfélögum eða fyrirtækjum sem hefðu höfuðstöðvar erlendis og væru með dótturfyrirtæki hér og slíkt — að þetta væri ekki eins alvarlegt og það liti út fyrir að vera, það yrði að greina skuldirnar og þá liti þetta miklu betur út. Ef það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta líti miklu betur út en tölurnar segja og þær séu ekki sambærilegar við neinar aðrar tölur, sem er nú svolítið sérkennilegt en segjum að svo sé og segjum líka að það sé rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að horfur á Íslandi séu öfundsverðar — þetta er orðalag sem matsfyrirtækin notuðu alltaf á liðnum árum, að horfurnar á Íslandi væru öfundsverðar — þá er það alla vega mér óskiljanlegt, ef við á sama tíma höldum því fram að horfur í efnahagsmálum og á þeirri stöðu þjóðarbúsins að við munum geta greitt allar þessar skuldir og komið ekki bara fótunum upp úr þessu heldur verðum aftur ein ríkasta þjóð í Vestur-Evrópu og þar með í heimi, að þá skuli ógnin við það að ganga ekki að því að auka skuldsetninguna enn frekar með því að yfirtaka Icesave vera sú að matsfyrirtækin muni hugsanlega fara að flokka okkur niður. Ég mundi halda, ef þetta er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem ég tek svolítið undir, að sóknarfærin á Íslandi séu talsvert mikil, að matsfyrirtækin hljóti að horfa á þessar sömu jákvæðu horfur og túlka það svo að Ísland muni geta greitt umtalsverðar skuldir á næstu árum og að auki byggt upp samfélagið. Ég verð að segja eins og er að mér fannst þessi rök hæstv. ráðherra í gær eða fyrradag — menn eru farnir að ruglast í dögum, þingmenn á hinu háa Alþingi, þegar þeir renna orðið saman — ekki nægilega sterk fyrir því að annars vegar sé allt að fara til helvítis liggur mér við að segja, afsakið, frú forseti, að ég skuli nota þetta orðbragð, en hins vegar séu horfurnar óvenjubjartar og glæsilegar og það sé í sjálfu sér spurning hvenær við munum standa upp sem ein efnaðasta þjóð í Evrópu.

Ég hefði haldið, frú forseti, að þær fréttir sem bárust í dag, bara þær, gerðu það að verkum að þetta mál yrði tekið af formlegri dagskrá, yrði vísað til nefnda þingsins og farið að fjalla um það aftur svo menn gerðu sér betur grein fyrir þeirri stöðu sem málið er í. Ég teldi það miklu eðlilegra en að við séum hér í pontu að reyna að ræða málið efnislega á þeim takmarkaða tíma sem við höfum til þess og með þeim takmarkaða hætti, ekki síst í ljósi þess að stjórnarliðar koma mjög ógjarnan upp til að halda ræður til að reyna að sannfæra okkur stjórnarandstæðinga og þjóðina um að sú leið sem ríkisstjórnin og stjórnarliðarnir eru á sé sú eina rétta. Ég held að ég fari rétt með og hafi sagt það áðan að það tikkast ansi hratt inn á undirskriftalistann hjá Indefence um að skora á forsetann að staðfesta ekki þessi lög, ef svo illa færi að þau færu í gegnum þingið á næstu dögum. Ég held að það lýsi því að meðal þjóðarinnar er alveg óútskýranlegt gap (Forseti hringir.) sem stjórnarliðar eiga sannarlega eftir að reyna að fylla í með rökstuðningi ef þeir hafa vilja til.