138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir spurningarnar og vangavelturnar. Þingmaðurinn kom inn á þó nokkur atriði. Ég get tekið undir að það undraði mig nokkuð að hæstv. fjármálaráðherra skyldi svara með þeim hætti sem hann gerði í morgun þegar síðan þessar fréttir staðfesta það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að reyna að fá fram hjá ráðherranum í fyrirspurn sinni. Það er alveg klárt að vaxandi skuldir hækka skuldaþol íslensku þjóðarinnar og það er jafnframt ljóst að hin efnahagslega óvissa, sem er næg í málinu fyrir bara með tilliti til málsins sjálfs, þ.e. um endurheimtur af eignum Landsbankans til þrotabúsins, sú óvissa er auðvitað næg og gengisáhættan þótt ekki bætist við að það sé erfitt að átta sig á þeirri skuldabyrði sem hvílir á þjóðarbúinu.

Hvort þetta snertir stjórnarskrána með einum eða öðrum hætti, eins og margir þingmenn hafa rætt og hv. þingmaður nefndi, ég tel þetta einfaldlega vera þess eðlis, svona atriði sem hafa komið upp gera það að verkum að við þingmenn hljótum að kalla eftir því að það liggi skýrt fyrir með skriflegri greinargerð eða öðrum hætti þannig að það sé ekki einhver óvissa um hvort svona frumvarp eða í raun og veru hvaða frumvarp sem er en ekki síst af þessari stærðargráðu, standist stjórnarskrána.

Varðandi það að álit þurfi frá Seðlabankanum og að vísa málinu til fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar, þá hefur það verið skoðun mín og ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að það sé nauðsynlegt.