138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held, svo rétt sé, að auk hæstv. fjármálaráðherra hafi hv. þingmaður, varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, talað einu sinni í málinu. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hún er hrópandi sú þögn sem sérstaklega þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sýna í þingsalnum og ræðustólnum að koma ekki upp og útskýra mál sitt, reyndar með nokkrum undantekningum, bæði hv. þm. Björn Valur og hv. þm. Atli Gíslason, eins og þingmaðurinn nefndi, hafa komið upp í andsvörum alla vega í dag og reyndar aðeins hina dagana líka en það hefur ekki verið efnisleg umræða af þeirra hálfu. Mér finnst persónulega að þeir skuldi kjósendum sínum, þó ekki væri nema vegna þeirra, að standa hér upp og útskýra skoðanir sínar og hvernig þeir hyggjast greiða atkvæði og hvernig þeir ætla að rökstyðja það mál. Nú hafa þeir margir haldið því fram að þeir ætli ekki að gera það fyrr en við atkvæðagreiðsluna og það verður væntanlega svolítil spenna sem fylgir því.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir velti því upp hvort hér væru einhverjar ógnanir eða málefni uppi eins og grímulausar hótanir frá aðilum innan Evrópusambandsins, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði. Ég heyrði reyndar hv. þingmann spyrja hæstv. forsætisráðherra um þetta í morgun og ég heyrði líka að forsætisráðherrann svaraði með allt öðrum hætti en hæstv. fjármálaráðherra gaf til kynna í ræðu sinni í gær, og satt best að segja sitt í hvora áttina.

Ég tel ekki að neinir hagsmunir ógni því að við eigum að standa vaktina og taka þessa málefnalegu umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að málið hafi versnað það mikið frá sumarþinginu (Forseti hringir.) að nauðsynlegt sé að fara yfir það að nýju og taka það inn í nefndir. Helst vildi ég að menn mundu hreinlega viðurkenna það (Forseti hringir.) að frá upphafi hafi þetta ekki verið nægilega gott mál og menn fari út og semji að nýju.