138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, þetta er að verða eitt allsherjarríkisleyndarmál hver það var í hópi alþjóðastofnana eða ríkja sem hefur verið að beita þrýstingi að sögn. Ég hef verið að velta því fyrir mér í kvöld hvort ekki sé kominn tími til að Alþingi setji á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd sem fái allar heimildir til að geta varpað ljósi á þetta, því að það er alveg greinilegt að þingið með þeim hefðbundna hætti að reyna að hlýða ráðherrum yfir, hefur ekki erindi sem erfiði, við fáum ekki upplýsingar um þetta. Í júní, held ég, var sagt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri að pína okkur, svo voru það Norðurlöndin, í gær var það Evrópusambandið og í dag var það ekki Evrópusambandið. Við erum í sjálfu sér engu nær.

Kjarni málsins er sá, sem ég gerði aðeins að umræðuefni, það er spurningin um skuldahlutfallið og skuldaþolið. Það vekur auðvitað athygli að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli komast að svona gerólíkri niðurstöðu núna miðað við síðastliðið haust, haustið 2008. Þá eru einfaldlega uppi tvær tilgátur, hvort sjóðurinn telji að hægt sé að ganga endalaust á þanþol almennings og fyrirtækja, eða hvort það sé svo, sem þingmenn Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd telja, að Hollendingar og Bretar hafi kokkað upp tölurnar, verið að hræra í pottum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að komast að þessari niðurstöðu. Hins vegar vitum við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er auðvitað ekki óskeikull. Ég held ég muni það rétt að haustið 2008 sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér skýrslu um Ísland og vakti athygli á ýmsum hlutum sem þyrfti að gæta að, m.a. hinum mikla vexti í bankakerfinu, en sagði hins vegar að langtímahorfur í efnahagsmálum á Íslandi væru öfundsverðar. Ég geri ráð fyrir sjóðurinn hefði gjarnan viljað vera laus við að hafa sagt þau orð en hann sagði þau og þess vegna er auðvitað full ástæða fyrir okkur (Forseti hringir.) að líta gagnrýnum augum á það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendir frá sér.