138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu sem hér hefur komið fram um að hæstv. ráðherrar komi sér inn í salinn og hlusti á umræðuna. Það er ekki það sama að sitja í einhverju kaffispjalli frammi í matsal og halda því fram að maður sé að fylgjast með umræðunni af fullri getu. Ég held að það sé líka sérstaklega mikilvægt, í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa verið að koma fram núna í fjölmiðlum, af fundum sem ýmsir hafa átt með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í dag, að hæstv. fjármálaráðherra svari því hvort hann hafi verið að segja satt í hádeginu þegar hann sagðist ekki hafa upplýsingar um það að skuldir þjóðarbúsins væru umtalsvert hærri en kom fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við fyrstu endurskoðun, umtalsvert hærri. Ég held að við hljótum að gera þá kröfu líka til hæstv. forsætisráðherra, þó að hún hafi komið Seðlabankanum yfir á efnahags- og viðskiptaráðherra, sem enginn kaus, að hún komi hingað líka og svari því hvort hún hafi eitthvað verið að fylgjast með efnahagsmálum (Forseti hringir.) og viti að skuldirnar hafi aukist þetta mikið.