138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrr í dag kom einn þingmaður stjórnarliðsins hingað í mikilli geðshræringu og sagði að ef við í stjórnarandstöðunni mundum halda áfram að nýta okkur þennan rétt úr þessu púlti sem er lögvarinn, hann er stjórnarskrárvarinn, nýta okkur málfrelsið á þingi færi íslenska þjóðin í þrot. Þá yrði bara greiðsluþrot hér. Ég vil fá viðhorf hv. þingmanns til þessa, hvort hann sá sammála því að ef við höldum áfram að ræða málið verði hér greiðsluþrot. Mér sýnist og heyrist í hverri ræðu sem hv. þingmaður flytur að alltaf komi fram nýir og nýir punktar. Ég þakka sérstaklega fyrir snjallar ræður fram til þessa.

Ég vil fá að vita annars vegar um þetta, hvort hann sé sammála þessum hv. þingmanni, og síðan er hitt, hvort hann sé sammála hræðsluáróðri ríkisstjórnarinnar — að mínu mati er það hræðsluáróður — varðandi það að við Íslendingar munum falla í svonefndan ruslflokk í lánshæfismatinu, „junk bond“, ef frumvarpið verður ekki samþykkt. Mat hæstv. forsætisráðherra er (Forseti hringir.) að afleiðingar þess kunni að verða þær ef við tökum okkur þennan rétt (Forseti hringir.) sem við eigum lögum samkvæmt, þ.e. að standa vörð um íslenska hagsmuni og þora að tala um þá úr púltinu.