138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessi grein væri hreinlega fyndin ef þetta væri ekki svo sorglegt, að ríkisstjórnin gangi út frá því í fyrsta lagi að við sitjum uppi með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn næstu árin, en ekki nóg með það heldur ætli hún að treysta á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að framkvæma þetta mat. Hvað hefur þessi sama ríkisstjórn sagt um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Hún heldur því fram að hann beiti okkur þvingunum og að við verðum að samþykkja þessar gríðarlegu skuldir, sama hvort við ráðum við þær eða ekki, vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlast til þess og ef við gerum það ekki verðum við beitt einhvers konar refsingum. Þessi sami Alþjóðagjaldeyrissjóður á svo að fá að dæma um það hvort við uppfyllum skilyrðin. Þetta nær ekki nokkurri átt en er þó í samræmi við það að ríkisstjórnin leitar hvergi ráðgjafar út fyrir þennan afmarkaða hóp, þennan hóp sem heldur því fram að við verðum að afgreiða málið. Komi leiðbeiningar annars staðar að, (Forseti hringir.) sem yfirleitt eru þá á þann veg að við þurfum ekki að standa í þessu, er þeim hafnað.