138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:29]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Allt þetta Icesave-mál, alveg frá því að það kom fram í sumar, hefur einkennst af hótunum af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í garð stjórnarandstöðunnar og leyndarhjúp um þær mikilvægu upplýsingar sem til þurfa að vera svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. Ef stjórnarandstaðan hefði ekki þráast við að láta undan þessum hótunum væri þetta mál fyrir löngu farið í gegn með óskaplegum afleiðingum fyrir íslenska þjóð.

Nú virðist hæstv. fjármálaráðherra hafa aðrar upplýsingar um skuldaþol íslenska ríkisins en fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef marka má fréttir í kvöld. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort hann telji ekki alveg einboðið að hv. efnahags- og skattanefnd verði að fara ofan í saumana á skuldaþoli íslenska ríkisins áður en hægt verður að afgreiða þetta mál og jafnvel fá til liðs við sig erlenda sérfræðinga og gera það sem menn hefðu átt að gera strax í upphafi, leita til óháðra aðila með þá stöðu sem Ísland er í og taka þann tíma sem þarf þannig (Forseti hringir.) að þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt þessi ósköp viti menn a.m.k. hvað þeir eiga að gera.