138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það hafi verið jafnvel ein stærstu mistökin í þessu Icesave-máli öllu saman að menn skuli ekki hafa strax í upphafi leitað ráðgjafar erlendis frá. Nú eru stöðugt að koma fram nýjar upplýsingar þótt hv. stjórnarliðar líti svo á að málið sé fullrætt og það sé hið brýnasta mál að fara að koma þessum klyfjum á íslenska þjóð.

Undanfarnar vikur hafa váleg tíðindi borist frá Dúbaí þar sem efnahagsástandið er komið í mikinn vanda og það er alveg augljóst vegna þess sambands sem er á milli Dúbaís og t.d. Bretlands, breskra banka, að hrunið sem þar er orðið getur haft afleiðingar á efnahagsmál í heiminum og jafnvel leitt til þess að kreppan fari að sýna tennurnar á ný. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri ráð að við reyndum að doka við og sjá hvaða afleiðingar þeir atburðir hafa á (Forseti hringir.) efnahagsheildina áður en við förum að takast á herðar þessar skuldbindingar.