138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðum ættum við að gera það. Þetta lýtur m.a. að margumtöluðu lánshæfismati. Nú hefur verið bent á í fjölmiðlum um allan heim að það sem gerðist í Dúbaí geti vel og muni líklega leiða til þess að lánshæfismatsfyrirtækin endurmeti lánshæfi ríkja. Fyrst Dúbaí lenti í þessu þurfa menn væntanlega að hafa áhyggjur af öðrum ríkjum. Það eru verulegar líkur á því að það leiði til þess að lánshæfismat Íslands verði lækkað eins og með mörg önnur skuldsett lönd. Sérstaklega munu menn líta til þeirra landa sem eru verulega skuldsett í erlendri mynt. Ef við lendum í því að lánshæfi okkar verði lækkað í framhaldi af því sem gerðist í Dúbaí og þeirri atburðarás sem það setur af stað er eins gott að við séum ekki búnir að kasta fyrir borð þessum efnahagslegu fyrirvörum, þ.e. að við höfum þá einhverja stöðu í málinu en séum ekki svo skuldsett að við fáum hvergi lán og með lánshæfismat sem enn festir þá stöðu í sessi. Þá er þeim mun mikilvægara að við séum reiðubúin til að verja okkur efnahagslega og komast hjá því að ríkið fari í þrot.