138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er eitt af þessum fjölmörgu stóru atriðum sem menn virðast hafa klikkað á. Ég held að þetta hafi gerst einfaldlega þannig að þeir sem sömdu fyrir Íslands hönd hafi ekki gert sér grein fyrir þessu. Þegar ég var á borgarafundi í Iðnó fyrir nokkrum mánuðum þar sem hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á þetta virtust menn koma af fjöllum, ekki hafa gert sér grein fyrir þessum möguleika. Eins og hv. þingmaður bendir á eru afleiðingarnar af því að vera skuldbundinn í erlendri mynt alveg ótrúlega margar og neikvæðar.

Ein er sú að þegar menn þurfa að borga til útlanda í mynt annars ríkis, sérstaklega útflutningsland eins og Ísland, tapa þeir þeim mun meiru vegna þess að þeir peningar sem við höfum yfirleitt fengið fyrir útflutning okkar hafa margfaldast, tvöfaldast eða þrefaldast, við það að skipta um hendur í íslenska hagkerfinu. Þar hafa orðið margföldunaráhrif sem við förum nú á mis við.