138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræddur fyrsti málsliður hét áður að innlánstryggingakerfið ætti að tryggja innstæðurnar en því er breytt og í staðinn kemur: „Member States shall ensure“, þ.e. að aðildarríkin eigi að tryggja. Hvernig gera þau það? Þetta er ríkisábyrgð (Gripið fram í: Nei.) með einhverju formi. (Gripið fram í: Nei.) Þetta er gífurlega mikil breyting frá því sem verið hefur en í anda þess sem Bretar og Hollendingar gerðu. Þeir borguðu út innstæðurnar, tóku ákvörðun um það einhliða, til þess að viðhalda trausti á innstæður tóku þeir einhliða ákvörðun um að borga út innstæðurnar, sendu Íslendingum svo reikninginn fyrir þeirra hluta og ætla örugglega að láta bankakerfi sitt borga eftir á, því að þeir eru með eftirákerfi. Þeir láta bankakerfi sitt, sem er mjög stórt og voldugt, borga eftir á það sem þeir þurfa að leggja út, þannig að skattgreiðendur í Bretlandi og Hollandi sleppa örugglega við að borga nokkuð af þessu en íslenskir skattgreiðendur skulu einir borga sig alveg undir drep.