138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að mikið verk er óunnið áður en við samþykkjum þetta frumvarp sem við ræðum. Hv. efnahags- og skattanefnd þarf að fara í gegnum fjölda atriða og hv. fjárlaganefnd þarf að fara í gegnum t.d. þetta atriði.

Ég lagði til fyrir síðustu jól að þessari tilskipun yrði breytt þannig að einn sjóður yrði myndaður fyrir alla Evrópu og sá sjóður hefði heimild til að grípa inn í ef innstæður yxu mjög hratt eða ávöxtun væri óeðlilega há og svo yrði það ákvæði að innstæður hefðu alltaf forgang í þrotabú banka eins og í neyðarlögunum. Þetta verður að gera til að þetta kerfi virki svona nokkurn veginn.

Svo getur þessi sjóður yfir alla Evrópu að sjálfsögðu bæði fjármagnað sig fyrir fram og eftir á og sennilega er eftiráfjármögnun betri. En það er fráleitt að lítil lönd séu hvert með sinn sjóð.