138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa athyglisverðu ræðu og tek undir það með honum að hreinn dónaskapur væri að halda því fram að hann væri hér í málþófi. Ég gat ekki betur heyrt en að hér væri enn á ný hreyft nýju efnisatriði sem þyrfti umfjöllun í nefndum þingsins, eins og hv. þingmaður kom inn á og hv. þingmenn ræddu hér áðan.

Ég hjó eftir því að í upphafsorðum eða fyrri hluta ræðu hv. þingmanns ræddi hann um þá ábyrgð sem fjármálaeftirlit í Hollandi og Bretlandi hefðu borið eða ættu að bera á þessum innstæðureikningum með sambærilegum hætti og íslenska fjármálaeftirlitið. Þá langar mig til að rifja það upp og spyrja þingmanninn hvort hann telji ekki að hægt hefði verið að grípa inn í í apríl eða maí árið 2008 þegar reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir. Þrátt fyrir alls kyns varnaðarorð 2006 og kannski grunsemdir sem voru uppi þá þegar 2008 um að þessi bóla í bönkunum gæti ekki gengið, var stofnað til þessara reikninga í Hollandi. Er ábyrgð hollenskra fjármálayfirvalda ekki gríðarleg á því að hafa leyft það að á þessum tíma? Frá apríl eða maí voru stofnaðir um 200 þúsund reikningar í Hollandi og í Bretlandi fjölgaði á þessum sama tíma Icesave-reikningunum fjórfalt eða fimmfalt. Hefði ekki verið eðlilegt að þarna hefði verið gripið inn í, ekki bara af íslenskum fjármálayfirvöldum (Forseti hringir.) heldur einnig af fjármálayfirvöldum í Hollandi og Bretlandi?