138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt. Bresk yfirvöld hafa skautað mjög létt hjá því að fjármálaeftirlit Hollands bar t.d. ábyrgð neytendaverndar á innstæðunum. Það er svona eiginlega það fyrsta sem gerist þegar menn leggja inn. Síðan er spurning um efnahag viðkomandi banka á Íslandi. Það er ekki hægt að skoða hann reglulega, það er bara um áramót eða tvisvar eða fjórum sinnum á ári þannig að eini aðilinn sem gat virkilega gripið inn í var fjármálaeftirlit Hollands með því að benda á að vextirnir væru óeðlilega háir á þessum reikningi. Mig langar til að velta upp þeirri spurningu hvað hefði gerst ef í Hollandi hefðu ekki myndast 120 þúsund reikningar á þremur mánuðum heldur 1,2 milljónir reikninga, sem er auðvelt, eða í Þýskalandi? Hvað hefði gerst ef í stað 300 þúsund reikninga í Bretlandi hefðu myndast þrjár milljónir reikninga með tíu sinnum meira fjármagni? Hvernig hefði mönnum dottið í hug að lesta Ísland með sjö þúsund milljörðum í stað 700 milljarða?

Þetta sýnir okkur að svona kerfi gengur bara ekki upp. Það verður að koma eitt miðlægt innlánstryggingakerfi fyrir alla Evrópu, helst fyrir allan heiminn, sem tryggir innstæðurnar en hefur jafnframt möguleika á að grípa inn í ef vextir eru óeðlilega háir eins og var þarna í Hollandi.

Það er dálítið skemmtilegt að vísa til þess að hollenski fjármálaráðherrann sagði í þessari títtnefndu ræðu að sá sem óskaði eftir því að fá hærri vexti óskaði líka eftir meiri áhættu.