138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir svarið og tek undir með honum að það er áhugaverð hugmynd, sem hann varpaði fram í fyrra og endurtekur nú úr ræðupúlti, að æskilegt hefði verið að til væri einn sameiginlegur innlánstryggingarsjóður. Það er svo augljóst eftir að hafa kynnt sér þessi mál og þingmaðurinn fór mjög vel yfir hvað það eru stórir ágallar á hinni evrópsku tilskipun um innlánstryggingarsjóðina. En menn eru á einhvern undarlegan hátt að reyna að þvinga okkur til að taka á okkur alla ábyrgðina og kannski langt umfram alla eðlilega getu, eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á, með því að stækka málið og gera það fræðilegt því þá þyrftu menn að fara að svara því fræðilega hvort það stæðist. Það er augljóst að svo gæti ekki verið og það ætti ekki að vera vafamál (Forseti hringir.) að ábyrgðin ætti að falla miklu jafnar (Forseti hringir.) á fjármálaeftirlit bæði Hollands og Bretlands. (Forseti hringir.)

Mig langar að enda þetta andsvar á að spyrja þingmanninn hvort hann telji að byrðunum (Forseti hringir.) sé deilt réttilega og jafnt miðað við þá ábyrgð (Forseti hringir.) sem við höfum séð í samningnum.