138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að hljóma sem málþóf að ég ætla að endurtaka það sem ég sagði fyrr í ræðu eða andsvari. Hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði fyrir nokkrum vikum að Íslendingar hefðu samið sakbitnir, þeir hefðu vitað upp á sig sökina. Enda kom hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, í Morgunblaðið 13. október, viku eftir hrun og segir Íslendinga bera þjóðréttarlega skuldbindingu til að borga Icesave, þjóðréttarleg skylda, sagði hann. Þetta er alveg með ólíkindum. Hann segir andstæðingum okkar, þeim sem hann ætlar að semja við, að þeir hafi rétt fyrir sér og við höfum rangt fyrir okkur. Það var ekki búið að skoða tilskipanirnar, ekki var búið að skoða nokkurn skapaðan hlut.

Það er von að samkomulagið líti út eins og það lítur út. Það er von að niðurstaða samninganna sé svona óskapleg þannig að meira að segja vextirnir, 5,55%, svavarsvextirnir, jaðra við það að vera vextir af ruslbréfum. Íslendingar mundu sennilega fá ódýrari lán með því að falla í ruslbréfaflokk en borga af Icesave. Það samkomulag sem við ræðum er á allan máta mjög slæmt. Það sem Alþingi á að gera núna er að taka sér hlé í umræðunni, fresta henni fram á vorið, sjá hvað Bretar og Hollendingar gera þegar þeir sjá mjólkurkúna hverfa og sjá hvort þeir fallist þá ekki á þá skynsamlegu og sanngjörnu fyrirvara sem Alþingi samþykkti í sumar.