138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef við samþykkjum Icesave er ég hræddur um að mjög margir verði þunglyndir og þeim muni líða illa af því að þeir vita af einhverju óljósu vofandi fyrir sér. Fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti í vor tryggðu einmitt þjóðina gegn því að verða fyrir áföllum eins og ef neyðarlögin halda ekki, eins og ef hér verður ekki hagvöxtur í tíu ár, eins og ef engin verðbólga verður í Bretlandi. Það var trygging fyrir þessu og þær 100 milljónir á dag sem falla til eru einmitt dæmi um hvað þetta eru óhemjustórar tölur.

Ég hef sagt að sumum finnst milljarður vera sama og milljón og það er sama sem bíll. Menn vita í rauninni ekki um hvaða hugtök er að ræða. Milljarður er 1.000 milljónir, alveg gífurlega stór tala.