138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru allir sammála um að fjárlaganefnd vann mikið og gott starf í sumar og kom miklu til leiðar í þeim hörmungarsamningi sem framkvæmdarvaldið kom með fyrir Alþingi, það fer ekki á milli mála, enda urðu þeir fyrirvarar sem smíðaðir voru í fjárlaganefnd að lögum 28. ágúst, eins og ég sagði áðan í andsvari. En það breytir því ekki að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig sem skyldi og er með leyndarhjúp hér yfir öllu, samanber það að það átti ekki að sýna okkur samninginn. Mig langar líka til að benda á að þegar Eva Joly fór að tjá sig um þetta og skrifa greinar um að við gætum ekki ráðið við þessa skuldabyrði, spruttu samstundis fram Evrópuþjóðir og buðu fram aðstoð sína við rannsókn á falli bankanna þannig að ég tel að það sé nú eitthvert samhengi þarna á milli.

En ég þakka hv. (Forseti hringir.) þingmanni fyrir hans vinnu í fjárlaganefnd því að hún hefur þó komið því til leiðar að hægt var að lappa upp á þennan ömurlega samning.