138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um að fjárlaganefnd vann mikið og gott starf í sumar og þar lögðu allir nefndarmenn sig fram, þeir hv. þingmenn sem þar starfa. Eins og ég sagði hér áðan lögðust allir á eitt um að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni, ég benti á það í ræðu minni áðan, að það eru einmitt upphafsorðin í grein Evu Joly sem birtist að mig minnir í fimm löndum samtímis. Það mjög mikilsvert framtak hjá þeirri ágætu konu að stíga fram á sjónarsviðið og verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar, þessa smáríkis í Atlantshafinu, og í raun í fyrsta sinn sem það var gert. Það hefðu forustumenn ríkisstjórnarinnar auðvitað átt að vera búnir að gera fyrir löngu og skrifa greinar sambærilegar þessari.

En því miður var nú vinnan öðruvísi í fjárlaganefnd. Málið var tekið út í óþökk minni hlutans og fékk aldrei neina efnislega umfjöllun í fjárlaganefnd eftir að búið var að kalla eftir þeim gögnum sem nefndin gerði.