138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:58]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni með ólíkindum það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um þátttöku stjórnarsinna í þessari umræðu um líklega hættulegasta mál Íslandssögunnar varðandi samninga og stöðu gagnvart sjálfstæði Íslendinga. Sex þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna af 34 þingmönnum alls hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þeir eru gjörsamlega náttúrulausir í umræðunni og það gengur ekki þegar menn eru að véla um framtíð Íslands. Það bara gengur ekki. Þar verða menn að sýna það sem að baki liggur í vörn og sókn og standa fyrir máli sínu.

Þetta kemur ekki á óvart, virðulegi forseti, varðandi Samfylkinguna því að hún er flutt til Brussel. Hún á núna lögheimili við Schumannstorg í Brussel í höfuðstöðvum Evrópusambandsins og bíður þar átekta eftir að fá að vera þar í framtíðinni. Hana varðar ekkert um okkur norðurhjarafólkið sem erum að reynum að standa með okkar fólki um allt land í vörn, sókn og baráttugleði. Það er það sem við þurfum á að halda.

Það hefur hins vegar komið mér á óvart að jaxlarnir í Vinstri grænum virðast vera að bregðast, menn sem hafa langa reynslu, hafa byggt á hugsjónum og hefur verið hægt að treysta á í mörgu. Ég hafði væntingar til þeirra og bar virðingu fyrir þeim. Sjálfur er ég byltingarmaður að eðli og þess vegna hef ég kannski næmari skilning en margir félagar mínir á gildi margra þátta í lífi og hugsun Vinstri grænna, a.m.k. jaxlanna. En nú eru þetta allt orðnir einhverjir falskir gómar (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.] en vonandi rætist úr því.