138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að við höfum gert mistök í þessu máli frá fyrsta degi. Það sem er dapurlegast við þetta allt er að þeir sem viðurkenna ekki mistökin læra aldrei af þeim. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að fólk er alltaf í afneitun. Mistök verður að viðurkenna, annars lærist ekkert af þeim. Auðvitað áttum við strax í upphafi málsins, eins og ég nefndi t.d. hér í ræðu minni áðan, að fá menn líkt og Lee Buchheit, sem er einn reyndasti samningamaður í allri veröldinni, til að leiða okkur í gegnum þetta. Það kemur þeim sem voru í samninganefndinni ekkert við persónulega, það hefði bara verið mikilvægt að fá mann eins og Lee Buchheit til að stýra þessu og leiða okkur í gegnum þá erfiðleika sem við vorum í. Þetta er maður með reynslu og hann veit hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vinnur, hvernig hann kemur og gerir nauðasamninga og hirðir svo allar auðlindir landsins og við verðum bara hér hugsanlega einhverjir leiguliðar og greiðum í hlekkjum fyrir Breta og Hollendinga. Það getur bara endað þannig, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður benti á Brussel-viðmiðin, það er skrifað inn í samningana núna að tekið sé tillit til Brussel-viðmiðanna. Hvað ætla Íslendingar að gera ef allt fer á versta veg, sem ég svo sannarlega vona ekki, hvað ætla menn þá að gera og segja við Breta og Hollendinga, nýlenduherrana, ja, nú er þetta komið vel og illa fyrir okkur, við þurfum að endurskoða þetta allt. Þá benda þeir náttúrlega einfaldlega á Brussel-viðmiðin, það er tekið tillit til þeirra inni í samningunum. Um hvað fjalla Brussel-viðmiðin? Þau fjalla um það að íslenskri þjóð verði gert kleift að byggja sig upp aftur. Þá benda þeir einfaldlega á þetta. Þá gætum við lent í því að þurfa að afsala okkur auðlindunum og annað. Það er auðvitað það sem við hræðumst.