138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir yfirferð hans í þessari ræðu. Hann er afar töluglöggur maður og raunverulega þyrfti þingið ekki að kalla til neinn sérfræðing í útreikningum þar sem þetta er hans sérsvið.

Miðað við lýsingarnar er eins og við séum stödd í lottóvél. Við vitum það öll því að áhættuþættirnir eru svo gríðarlega miklir í þessu máli. Það virðist bara vera spurning um happdrætti hvar við hendumst út úr þeirri lottóvél. Það er óþolandi að íslenska þjóðin skuli þurfa að standa frammi fyrir því að verið sé að ríkisvæða einkaskuldir fyrirtækis sem kemur þjóðinni ekkert við.

Mig langar að grípa hér ofan í nefndarálit meiri hlutans sem var skilað við þetta frumvarp. Á bls. 17 í nefndarálitinu er vitnað í rannsóknarritgerð eftir Reinhart/Rogoff þar sem þeir kynna til sögunnar skuldaóþol. Þeir líkja því við mjólkursykuróþol hjá fólki og það birtist í miklum þvingunum sem mörg þróunarríki upplifa þegar skuldabyrðin nær tilteknum mörkum sem þykja vel viðráðanleg hjá þróuðum iðnríkjum. Svo er fjallað um þetta skuldaóþol og það er yfirleitt sammerkt með því að þar eru opinber fjármál yfirleitt léleg og fjármálakerfið veikburða.

Í skýrslunni segir síðan að til þess að geta endurfjármagnað skuldir sínar verði ríki að geta sýnt að þau ætli að standa við skuldbindingar sínar, með leyfi forseta:

„Ríki sem hefur lítið traust vegna síendurtekinna greiðsluerfiðleika getur því oft ekki aflað lánsfjár þannig að skuldabyrði verður mjög há.“

Er ríkissjóður ekki einmitt á þessum punkti þarna sem vitnað er í í þessari skýrslu — til þess að endurfjármagna þær himinháu (Forseti hringir.) skuldir sem eru hér fyrirliggjandi hjá ríkissjóði þarf (Forseti hringir.) að samþykkja Icesave-samninginn til þess (Forseti hringir.) að geta tekið meiri lán?