138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að Seðlabankinn hafi sett þetta hér inn á þremur blaðsíðum í þetta nefndarálit þar sem verið er að fjalla um greiðslutap, skuldaóþol og annað. Þetta hefur fengið mjög lítið svigrúm hér í umræðunni á Alþingi, þessi fræði, og það sem gerist þegar þjóðir verða gríðarlega skuldsettar. Þetta kemur hér fram og eins og ég segi þá er voða lítið fjallað um þetta.

Þess vegna finnst mér það svo undarlegt, eða það er kannski ekki undarlegt í ljósi þessa, að verið sé að krefjast ríkisábyrgðar á þessum skuldum sem þjóðin ber ekki ábyrgð á til þess eins að ríkissjóður geti fjármagnað sig áfram því að eins og kemur fram í töflu í þessu nefndaráliti falla hvorki meira né minna, á ríkissjóð árið 2011, en tæplega 1.500 milljónir evra. Þetta eru engar smáupphæðir og það er það sem þarf að standa í skilum með. Hæstv. fjármálaráðherra hefur oft talað sem svo að Icesave-skuldbindingarnar væru bara litlar miðað við það sem gengið er fram á næstu ár enda taldi hann sig vera að semja um ákveðið skjól þegar við áttum ekki að fara að borga Icesave-skuldirnar fyrr en 2016.

Það lítur út fyrir að verið sé að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar til þess að hægt sé að sýna fram á það að við stöndum við skuldbindingar okkar þrátt fyrir að við getum ekki borgað þær, eins og fram hefur komið hjá t.d. Evu Joly og fleiri fræðimönnum sem hafa sýnt fram á að við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar, til þess eins að skuldsetja ríkissjóð meira. Það er óþolandi staða að ríkisstjórn í fullvalda ríki fari fram með þessum hætti eins og hinir svokölluðu útrásarvíkingar gerðu hér fyrir hrunið, að skulda meir og skulda meir og taka meira af lánum.