138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mikil ræða og ég get að mestu leyti fallist á hana. Við verðum virkilega að taka á Icesave. Sumir segja að stjórnarandstaðan vilji ekki fallast á Icesave og haldi bara að það hverfi. Mér finnst eins og margir stjórnarsinnar haldi að það sé bara nóg að samþykkja Icesave og henda því svo aftur fyrir sig og þá bara hverfi það. En það magnast upp fyrir allt annað, vex og vex ár eftir ár með gífurlegum vöxtum og hvolfist svo yfir þá árið 2016. Það kemur, hvort sem þeir verða þá við ríkisstjórn eða einhverjir aðrir. Íslensk þjóð þarf að borga það engu að síður. (Gripið fram í.)

Mér finnst að stjórnarliðar, hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn, séu haldnir frestunaráráttu, þeir vilji ekki taka á vandanum, þeir vilji ekki horfast í augu við hann. Þeir horfa á hann og ætla helst að skutla honum aftur fyrir sig og gleyma honum og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist. En það verður ekki þannig. Bretar og Hollendingar munu ekki gleyma því að við skuldum þeim alla þessa peninga. Þeir munu koma hérna og heimta vexti og þeir munu koma ef við getum ekki borgað og hjálpa okkur til að finna leiðir til að borga, t.d. með Landsvirkjun og veiðiheimildum og öðru slíku sem þeir verða örugglega duglegir við að benda okkur á leiðir til að geta borgað þessar skuldir. (Gripið fram í.) Til þess einmitt að ná í þetta. Ef ekki væri ríkisábyrgðin hefðu þeir ekkert tak á Íslendingum. En um leið og Alþingi er búið að veita ríkisábyrgðina getum við ekki bakkað og þó að sumir hæstv. ráðherrar og þingmenn, þeir voru reyndar tveir, haldi að við getum bara aflétt ríkisábyrgðinni er það sama hugsunin, að horfast ekkert í augu við vandann, bara gleyma honum. Við hættum bara við. Ég veit ekki hvað umheimurinn mundi þá segja, þetta svokallaða alþjóðasamfélag.