138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi svara forseta áðan vil ég þakka kærlega fyrir þau svör. Þá liggur það fyrir að þingfundur mun alla vega ekki standa lengur en til hálfellefu. Það er ágætt að hafa þær upplýsingar.

Í síðustu ræðu minni ræddi ég um efnahagslegu fyrirvarana. Ég skal viðurkenna að vinna mín sem varðar þetta mál hefur kannski fyrst og fremst tengst efnahagslegu fyrirvörunum og því sem varðar efnahagslegar forsendur samningsins. Ég var að fara í gegnum nefndarálit okkar framsóknarmanna frá því á sumarþinginu og þegar ég lauk ræðu minni síðast tiltók ég að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis væri komin langt umfram það sem gerist hjá mörgum skuldugustu þjóðum heims. Það hefur verið nefnt sem dæmi að mörg þeirra landa sem hafa lent í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og hafa fengið sérstaka fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa verið með mun lægra hlutfall í erlendum skuldum en við erum með núna. Það er óhugnanlegt að lesa þær fréttir sem hafa verið að koma fram í dag. Þegar við héldum að endanlegar tölur ættu að liggja fyrir um það hver erlend skuldastaða þjóðarbúsins væri koma fram upplýsingar um að skuldastaðan sé enn þá verri en við töldum hana vera. Okkur þótti 310% ansi vel í lagt og hlutfallið hafði þá rokið upp úr 240%, en í nóvember 2008 taldi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að erlend brúttó skuldsetning þjóðarbúsins væri áætluð um 160% af vergri landsframleiðslu. Hlutfall erlendra skulda Argentínu var 129% af vergri landsframleiðslu þegar sótt var um aðstoð árið 2003, hjá Úrúgvæ var það 82% árið 2005 og hjá Ungverjalandi var það 106,4% þegar sótt var um aðstoð árið 2008 svo nokkur ríki séu nefnd til samanburðar.

Gunnar Tómasson hagfræðingur benti á það í umsögn sinni í sumar að aðeins vextir af skuldahlutfalli upp á 250% jafngildi um einum þriðja af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og taldi hann því að þegar væru komnar upp forsendur til að biðja um endurupptöku á Icesave-samningnum. Á fundi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í dag var ein af spurningunum sem þingmenn báru upp hvort hægt væri að teygja óendanlega hugtakið sjálfbærni skulda íslenska þjóðarbúsins, hvort við gætum endalaust tekið við meiri skuldum og gætum alltaf reiknað okkur upp í það að við gætum vel staðið undir þeim. Starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hikuðu kannski aðeins en viðurkenndu að það væru ákveðin takmörk á því hvað við gætum tekið á okkur miklar byrðar. Þau mörk virðast nálgast mjög hratt, jafnvel að þeirra mati.

Ég kom að þeirri vinnu sem sneri að því búa til efnahagslegu fyrirvarana. Þess vegna verð ég að viðurkenna að mér brá mjög mikið þegar í ljós kom að búið væri að taka þetta lykilákvæði að mínu mati úr lögunum eða samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum núna, og í staðinn fyrir að það væri árlegt hámark á greiðslum úr ríkissjóði punktur, ætti að vera árlegt hámark á greiðslum afborgana en ávallt þyrfti að greiða vexti. Eins og hefur komið fram, m.a. í umsögn Indefence-hópsins, er mjög stór hluti af því sem við munum borga einmitt vextir. Vextir skipta algeru lykilmáli og vegna þess að vextir á kröfuna eru svokölluð eftirstæð krafa munu þær kröfur ekki fást greiddar út úr þrotabúi Landsbankans og jafnvel þótt eitthvað fengist upp í almennar kröfur munu eftirstöðvakröfur alls ekki fást greiddar. Við stöndum því frammi fyrir því að borga vextina og hugsunin með því að búa til þennan efnahagslega fyrirvara, sem átti líka að dekka vaxtakostnaðinn, var náttúrlega að tryggja okkur gagnvart þessu líka.

Það er sérstaklega líka vegna þess að eitt af því sem ég tel — og ég tel að sérfræðingar bæði hjá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum geti tekið undir — vera mjög stóran áhættuþátt fyrir íslenska þjóðarbúið er það hvernig greitt verður út úr þrotabúi Landsbankans, hvernig borgað verður út úr því. Nú liggur fyrir og kom fram strax í sumar að slitastjórn Landsbankans gerir alls ekki ráð fyrir því að byrja að borga eitt eða neitt út úr þrotabúinu fyrr en búið verður að leysa úr öllum þeim lagalegu deilumálum sem eru fram undan, t.d. varðandi röðun krafna og önnur lagaleg álitamál sem hafa komið upp. Það er áætlað að hægt sé að leysa úr þeim á kannski einu til einu og hálfu eða tveimur árum og eftir það ætti þrotabúið að geta farið að borga eitthvað upp í þessar kröfur. Það er því algerlega á hreinu að við munum borga vexti af öllum höfuðstól lánsins í eitt og hálft til tvö ár. Síðan hefur líka komið fram í þeim upplýsingum sem við höfum fengið um eignasafnið að það er töluvert afturþungt, eins og það er orðað, þ.e. það eru mjög stór lán sem eru með gjalddaga mjög seint á þessu tímabili, á þessu sjö ára tímabili áður en við þurfum að fara að borga Icesave-skuldina. (Gripið fram í.) Það eru því töluverðir fjármunir sem munu koma mjög seint og af þessum höfuðstól munum við að sjálfsögðu borga vexti og þetta er sem sagt mikill kostnaður.

Við tókum okkur saman, nokkrir þingmenn, í ljósi þess að við vorum mjög ósátt við það hvernig efnahags- og skattanefnd hafði staðið að því að fara í gegnum efnahagslegar forsendur Icesave-samninganna. Þetta voru hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Þór Saari, Pétur H. Blöndal, Tryggvi Þór Herbertsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og ég. Við settumst niður, unnum kvöld og nætur og um helgar — það ætti kannski að ráða okkur á togarann, hæstv. utanríkisráðherra — þar sem við lögðum til tvo fyrirvara. Fyrirvari 1 var, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgð samkvæmt 2. mgr. er bundin því skilyrði að aukning verði á vergri landsframleiðslu Íslands frá 2008 til greiðsluárs annars vegar mældri í pundum hvað varðar lánið frá breska ríkinu og hins vegar mældri í evrum hvað varðar lánið frá hollenska ríkinu.

Ríkisábyrgðin vegna greiðslu á árunum 2017 til og með 2023 er takmörkuð við 3,85% af vexti landsframleiðslunnar mældri í pundum gagnvart láninu frá breska ríkinu og 1,94% af vexti landsframleiðslunnar mældri í evrum gagnvart láninu frá hollenska ríkinu.“

Það fór mikil vinna í að reikna út forsendurnar fyrir þessum hámörkum í ljósi þeirra útreikninga sem Seðlabankinn hafði gert á því hvernig við ættum að geta staðið undir þessari greiðslu. Síðan heldur þetta áfram þar sem við setjum ákveðna fyrirvara tengda meðalgengi Seðlabankans á pundi og evru og síðan hvernig skuli standa að endurskoðun greiðslu. Og loks, ríkisábyrgðin fellur niður árið 2024, og þar með eftirstöðvar lánanna ef einhverjar eru. Þetta er fallið út líka í fyrirvaranum og þetta var algert lykilatriði varðandi þessa fyrirvara að við sæjum einhvern tíma fram á það að við mundum hætta að borga þetta lán.

Fyrirvari 2 er svohljóðandi:

„Ríkisábyrgðin fellur niður á hverju því ári sem:

1. Brúttóhlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fer yfir 240%.

2. Brúttóhlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum fer fyrir 250%.

3. Hlutfall afborgana og vaxta af brúttó erlendum skuldum af útflutningstekjum fer yfir 150%.“

Þetta fékkst hins vegar ekki sett inn í þá fyrirvara sem voru samþykktir af Alþingi í sumar en var sett í staðinn inn í greinargerð meirihlutaálitsins og átti að vera það viðmið sem ætti að miðast við til að endurskoða samninginn. Ég held að í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram í dag séu komnar forsendur fyrir því að fara í endurskoðun á þessum samningi. Því er mjög einkennilegt að við séum að ræða það hér að fara að gera breytingar á ríkisábyrgðinni þegar við ættum í raun að vera að ræða það hvort við getum staðið við þennan samning að nokkru leyti.

Annað sem ég nefndi í þessari vinnu, sem er eitthvað sem ég mundi gjarnan vilja koma að síðar í annarri ræðu í kvöld, er það hvort skoðaðar hefðu verið aðrar mögulegar leiðir (Forseti hringir.) til að leysa úr þessum vanda okkar. Svarið við því var þá mjög skýrt nei. Það er eitthvað sem ég mundi (Forseti hringir.) gjarnan vilja ræða í næstu ræðu minni á hinu háa Alþingi og ég óska því eftir að forseti setji mig aftur á mælendaskrá.