138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég skil hv. þingmann eru ýmis rök fyrir því að skoða betur aðrar hugsanlegar leiðir. Ég vil taka fram að ég var leiðrétt á meðan ég hlustaði á svar hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, það virðist vera einstaka undantekningar því af 63 þingmönnum telja alla vega einn eða tveir að þessir samningar séu ágætir. Ég held þó að meiri hluti þingmanna á þinginu, bæði í stjórnarflokkunum og meðal stjórnarandstæðinga, telji að þessir samningar séu mjög slæmir. Ég held að það hafi komið fram í umsögn Seðlabankans að þarna inni séu ákvæði sem er mjög sjaldgæft að sjá í samningum á milli þjóðríkja þótt þessi ákvæði komi fyrir í samningum milli einkaaðila.

Þó að þingmenn hafi ekki hugsað sér að tjá sig frekar um nákvæmlega þessa hugmynd ætla ég að fá að útskýra þetta betur. Við erum að tala um heildarforgangskröfur upp á 1.300 milljarða samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum frá Landsbankanum. Áætlað er að það fáist í kringum 90% upp í þessar forgangskröfur þó að menn hafi svo sem dregið þá tölu líka í efa út af gengisáhættunni. Þarna er ákveðið bil. Hvernig er í rauninni hægt að dekka þetta bil á meðan við látum reyna á okkar réttarstöðu, fáum á hreint hvort við eigum að borga þetta eða ekki og jafnvel fáum fjármagn sem er á lægri vöxtum en það sem núna býðst? Þá vil ég benda á að ég veit ekki til þess að nein skilyrði séu á lánunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að ekki megi nota þessa fjármuni í að greiða aðrar skuldbindingar ríkisins. Það hefur meira að segja komið fram frá starfsmönnum sjóðsins að þeir gera sér fyllilega grein fyrir því að ríkið muni væntanlega þurfa að nota þessa fjármuni. (Forseti hringir.) Kemur til greina að nota það fjármagn eða jafnvel leita eftir fjármagni innan lands hjá öðrum aðilum?