138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þegar ég hef tjáð mig um þetta stóra og mikla mál hef ég iðulega — einhverra hluta vegna og það vekur náttúrlega ekki furðu — komið að því sem tengist vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í öllu þessu máli. Ég hef ekki fengið viðbrögð frá stjórnarliðum nema úr hliðarsölum en fagna því sérstaklega að einn ráðherra skuli hafa þor til að vera nú í þingsal.

Mig langar aðeins að fara yfir hvernig menn stunduðu sína pólitík í mikilvægum málum á árum áður. Eitt mikilvægasta málið í íslenskri menningarsögu sem er í beinum tengslum við sjálfstæði og sjálfstæðisvitund þjóðarinnar er handritamálið. Það var einhugur meðal Íslendinga um að fá handritin heim. Einn helsti maður í stjórnmálunum til að vinna að framgangi þess máls var Gylfi Þ. Gíslason sem var einn merkasti leiðtogi Alþýðuflokksins gamla. Það væri nær lagi að hafa hann við lýði en þennan óskapnað sem er Samfylkingin í dag. (Gripið fram í.)

Gylfi Þ. Gíslason tók við starfi sem menntamálaráðherra árið 1956 (Gripið fram í.) og fékk þá forræði málsins. Það hafði verið ákveðin ládeyða í þessu máli um tveggja ára skeið en hann tók síðan við forræði málsins árið 1956. Það var reyndar ekki auglýst í Stjórnartíðindum en ákveðið engu að síður innan ríkisstjórnarinnar. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í Andvara sem kom út í nóvember sl. og var sérstaklega helgaður Gylfa Þ. Gíslasyni:

„Allt fram til þessa hafði dagleg umsýslan þess [handritamálsins] verið í höndum sendiherra landsins í Höfn, þar sem hver ágætismaðurinn á fætur öðrum gerði sitt ýtrasta til að þoka því áfram, meðal annars með viðræðum við danska menntamálaráðherrann og utanríkismálaráðuneytið. Og svo var alla tíð. En málið var svo viðkvæmt í báðum löndunum, jafnt á þjóðþingum þeirra, í ríkisstjórnum, í háskólum, meðal menntamanna og almennings, að það virtist sendiráðinu ofvaxið að ráða við þau sterku og áhrifaríku öfl, sem þar áttust við. Þótt tækist að þoka því áfram á einum stað varð því ekki hnikað á öðrum.“

Við áttum marga mikilvæga sendiherra og sterka, þar á meðal Sigurð Nordal. Hann lét m.a. þá skoðun í ljós að til greina kæmi að fara með málið í pólitískan farveg og leita lausna. Hann taldi að lausn í handritamálinu væri m.a. fólgin í því að skoða málið fyrst og fremst sem pólitískt viðfangsefni og þar með að hindra að fagfólkið — við getum talað um það sem álitsgjafa í dag — hafi síðasta orðið í þessu máli. Hann taldi sérstaklega mikilvægt til að ná þessu stórkostlega máli og fá handritin heim að setja það í hendurnar á stjórnmálamönnum en ekki embættismönnum. Sú leið var síðan valin.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Gylfi var sífellt á ferðinni á þessum árum og notaði fjölmörg tækifæri“ — og ég held að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefði ekki annað en gott af því að hlusta á hvernig forvígismenn Alþýðuflokksins höguðu sínum aðferðum og vinnubrögðum til að koma stórpólitískum deilumálum á milli landa (Gripið fram í.) — „til að ræða handritamálið við hlutaðeigandi forustumenn í dönskum stjórnmálum, hvar sem hann hitti þá. Það var ekki lauslegt tilviljunarkennt spjall hverju sinni, heldur formlegur eða óformlegur viðræðufundur, þar sem afhending handritanna var til umræðu.“

Menn vissu af símtölum og skoðanaskiptum, minnisblöðum — það er rétt að draga það fram, minnisblöðum sem allir vissu af — og drögum að tillögum er gengu síðan milli manna og smám saman náðist að þoka þessu máli áfram, dropinn holar steininn.

„Á Alþingi voru allir á einu máli og Gylfa hefur auðvitað verið mikill stuðningur að því. En honum var líka ljós nauðsyn þess, að hafa náið samráð við merka fræðimenn í landinu, sem væru meðal fremstu áhrifamanna og helstu ráðgjafa stjórnmálaflokkanna á þessu sviði.“

Það hefði verið nær ef ríkisstjórn Íslands í Icesave-málinu hefði t.d. haft náið samráð ekki bara við þá sem eru innan veggja Stjórnarráðsins heldur líka utan þeirra, til að mynda Sigurð Líndal sem má helst ekki hlusta á í dag.

Síðast en ekki síst segir hér, með leyfi forseta:

„… þar fyrir utan var honum ómetanlegt að eiga jafnan aðgang að helstu sérfræðingum Íslendinga í handritamálinu, sem þá voru þeir Einar Ól. Sveinsson, Jón Helgason, Jónas Kristjánsson og Sigurður Nordal.“

Síðan kemur nokkuð sem er afar mikilvægt að mínu mati:

„Með þessu styrkti hann pólitíska samstöðu stjórnmálaflokkanna um þá stefnu, sem rekin var og allir voru sammála um. En jafnframt er þetta enn eitt dæmið um þá drenglund hans, að meina engum að fylgjast með og hafa áhrif, væri fengur að því og teldist hann eiga siðferðilegan eða pólitískan rétt á því.“

Það væri fengur að hafa mann eins og Gylfa fyrir hönd vinstri manna á þingi í dag sem kynni þessi vinnubrögð, hlustaði á ákall stjórnarandstöðunnar um að sýna samheldni og einhug í þá veru að vinna málum Íslands framgang. Það hefði betur verið að samstaða Íslands og okkar á þingi hefði verið þvert á pólitískar línur eins og þegar þetta stórmenni í íslenskum stjórnmálum gerði sér far um að ná samstöðu allra manna í ljósi mikilvægis málsins. Í ljósi ríkra hagsmuna Íslendinga lagði hann sig fram um að hlusta, veita fólki aðgang að gögnum og vinna að samheldni og samstöðu til að ná handritunum heim. Ég er sannfærð um að ef sömu vinnubrögð og Gylfi viðhafði þá með samstöðu og samheldni, líka innan ríkisstjórnar því merkir menn eins og Bjarni Benediktsson heitinn kom að þessu sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra — ef við hefðum náð slíkri samstöðu í Icesave-málinu eins og menn lögðu sig fram um að gera á sínum tíma í handritamálinu værum við ekki að deila um þennan hörmungar samning í dag. Þá gætum við gengið um hnarreist með það í vitundinni og í farteskinu að hagsmunum Íslands til lengri tíma væri borgið.