138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ákaflega góða ræðu og nýja og ferska nálgun. Reyndar hafa komið fram nýir hlutir í ræðum fjölmargra þingmanna en þetta var engu að síður öðruvísi nálgun en við höfum heyrt áður.

Ég hefði áhuga á því að heyra álit hv. þingmanns á því sem haldið var fram áður en þingmaðurinn kom í pontu. Hv. þingmaður vék aðeins að því en ég hefði gjarnan viljað fá nánari útlistun á skoðun þingmannsins á því sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra áðan. Hæstv. utanríkisráðherra fullyrti að hið nýja samkomulag sem verið er að reyna að þröngva í gegnum þingið væri betra en fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti á sínum tíma. Augljóslega er hæstv. utanríkisráðherra ekki alvara með þessum fullyrðingum, ekki frekar en honum er alvara með þeim fullyrðingum að landflóttinn sem menn óttist sé óraunhæfur, nú þegar liggur fyrir að 7.000 manns fluttu af landi brott fyrstu níu mánuði ársins og þar af 4.000 Íslendingar. Hvað finnst hv. þingmanni um að ráðherrar í ríkisstjórninni skuli tala með þessum hætti um þetta mál? Gera þeir sér að mati hv. þingmanns enga grein fyrir alvarleika málsins? Eru þeir með svona ótrúlega ósvífnum hætti að reyna að slá ryki í augu almennings eða hvað fær hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni til að tala svona í þessu máli sem getur stefnt efnahagslegri framtíð Íslendinga og samfélaginu öllu í verulega hættu?