138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var með ólíkindum að heyra innlegg hæstv. utanríkisráðherra í þessari umræðu eftir miðnætti. Menn gera ráð fyrir því að þetta sé bara grín og glens hjá hæstv. ráðherra en um leið er það ákveðin lítilsvirðing gagnvart öllu þessu máli. Þetta segir mér bara að hæstv. ráðherra hefur ekki verið að hlusta á málflutning okkar í stjórnarandstöðunni fram til þessa. Ég trúi því ekki að óreyndu að ráðherra telji að þessi samningur sem við ræðum núna sé jafnvel betri, eins og hann orðaði það, en það sem þingið samþykkti í sumar. Münchhausen hafði ekki jafnmikið ímyndunarafl og hæstv. utanríkisráðherra í þessu.

Síðan upplifum við það hér að hæstv. iðnaðarráðherra talar um fantasíumatseðil. Ég átta mig ekki á fantasíum utanríkisráðherra í þessu máli og mér finnst það miður því að þetta er háalvarlegt mál. Við erum að tala um gríðarlegar skuldbindingar, mestu skuldbindingar Íslandssögunnar. Þetta er hryllilegt mál og þá kemur utanríkisráðherra og ætlar að vera voðalega fyndinn af því að við erum komin fram yfir miðnætti og talar um að þetta mál sé jafnvel betra en þegar það var samþykkt í sumar. (Gripið fram í.) Þetta er frekar ömurlegur málflutningur (Gripið fram í.) af hálfu hæstv. ráðherra og er í rauninni dæmi um hvernig ríkisstjórnin öll hefur haldið um þetta mál. Við upplifðum það í dag að forsætisráðherra sagði eitt, fjármálaráðherra sagði allt annað í gær. Það er ekki hönd á festandi hvað þessi ríkisstjórn segir eða hvað hún lætur frá sér annað en að hún stendur því miður ekki í lappirnar þegar kemur að hagsmunum Íslands og það er sorglegt. Það er hinn alvarlegi þáttur málsins.