138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er svo langt frá því að fjárlagafrumvarpið einkennist af alvöruleysi, enda var hæstv. félagsmálaráðherra ekki að tala um núverandi fjárlagafrumvarp í þessu viðtali. Eins og hv. þingmaður vísaði í var ráðherrann í viðtali þarna um öll þau stóru mál sem hann hefur staðið frammi fyrir að greiða úr á síðustu mánuðum og hann var að tala um fjárlagagerð síðustu ára. (Gripið fram í: Nei, nei.) Fjárlagagerð síðustu ára hefur einkennst af miklu alvöruleysi. Hann var ekki að tala um núverandi fjárlagafrumvarp. Þetta er svona leikur sem menn gera sér hér stundum á morgnana, að taka eins og eina setningu úr einhverju löngu viðtali, taka hana úr samhengi, reyna að gera stjórnmálamennina sem hafa sagt það ótrúverðuga og tortryggilega, spyrja svo einhvern annan að því og fá komment þeirra á það. Ég skora á hv. þingmenn, sem hér flissa eins og krakkar á skólabekk að því, að hlusta á viðtalið í heild sinni áður en stjórnmálamenn, fyrrverandi ráðherrar koma hér upp með það allt sundurslitið til að reyna að etja saman ráðherrum hvorum úr sínum flokknum til að skemmta skrattanum í sjálfu sér í morgunsárið og þjóna sinni lund fyrst og fremst. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa eins og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni unnið að afskaplega erfiðu verkefni á síðustu mánuðum, og það vita allir sem í þessum sal eru að þeir eru ekki öfundsverðir af því hlutverki sínu og hlutskipti en þeir hafa hins vegar gert það alveg prýðilega, og fram eru komnar tillögur um það hvernig megi ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem ekki virtist vera svo auðvelt verkefni fyrir nokkru síðan en lítur nú nokkuð bærilega út þó að fjárlaganefnd eigi eftir að vinna úr einstökum tillögum og útfæra rammana þá hafa þeir gert það afskaplega vel. Orð hæstv. félagsmálaráðherra voru ekki í neinu samhengi við það sem þingmaðurinn nefndi áðan.