138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ályktun Samfylkingarinnar í Garðabæ -- fjárlagagerð -- skattamál o.fl.

[11:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það er ágætt að það komi sem flestir þingmenn hingað upp og að sem flest sjónarmið nái fram. Ég verð að segja vegna þeirra orða sem hér hafa fallið, m.a. hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem fór yfir þær kröfur og þær hættur sem blöstu við ef Icesave-samkomulaginu yrði ekki lokið strax, að það var nefnt að það vantaði lánsfé og því var haldið fram að ef við mundum ekki skrifa undir Icesave-samkomulagið mundi ekki losna um nein lán t.d. frá Norðurlöndunum. Nú er komið í ljós að það er búið að losa um þau lán. (Gripið fram í.)

Því hefur verið haldið fram að það yrði að ganga frá þessu strax þannig að hægt væri að ráðast í að gera einhverjar endurbætur á fjárhag heimilanna. Það er búið að samþykkja heilt frumvarp einmitt um þann þátt þannig að það var hægt. Því hefur verið haldið fram að það væri í raun ekkert hægt að gera varðandi endurreisn bankanna nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Þessu hefur verið haldið fram og það kom fram m.a. í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Þó er það þannig að nú er þegar búið að gera þær ráðstafanir að lánardrottnar tveggja helstu bankanna hafa þegar tekið þessa banka yfir án þess að búið sé að ganga frá Icesave-samkomulaginu. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum, margt af því og allflest sem ríkisstjórnin hefur haldið fram að mundi ekki geta gerst eða mundi skella á okkur af fullum þunga ef ekki væri búið að ganga frá Icesave-samkomulaginu, hefur ekki gengið fram. Ég vitna hér til þess sem sagt var strax í sumar um alla þá ógæfu sem mundi dynja yfir ef þessu yrði ekki lokið þannig að það er eðlilegt að við þingmenn vöndum okkur í þessu máli. Ég verð að segja eins og er að ef ég þekkti ekki forustumenn ríkisstjórnarinnar að því að vera lýðræðissinna og ábyrga menn sem mundu aldrei taka undir það tal sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafði um að takmarka málfrelsi og tækifæri þingmanna til að ræða í þingsal, hefði ég haft áhyggjur og hefði jafnvel hugsað með mér að þetta væri frekar ógeðfelldur málflutningur. En það er raunverulega ekki hægt að gera neitt annað en að brosa að svona tali (Forseti hringir.) af því að ég treysti ágætlega því fólki (Forseti hringir.) sem er hér í forustu til að gæta hagsmuna þingsins.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hafði vonað að menn mundu virða tímamörk. Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk undir þessum lið þannig að allir geti komist að sem ættu að komast að undir þeim lið.)