138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt á þessum árstíma að við fundum hér lengur en hefðbundinn fundartími gerir ráð fyrir. En í ljósi þess að hér hafa verið mjög margir fundir að kvöldi og næturlagi að undanförnu, og þegar menn horfa til þingstarfa á undanförnum mánuðum allt frá því í sumar hefur svo verið, er eðlileg krafa okkar í stjórnarandstöðunni að reynt sé að skjóta á fundum þingflokksformanna áður en til atkvæðagreiðslu kemur eins og hér er og kanna hvort ekki sé hægt að komast að samkomulagi um hversu lengi fram eftir kvöldi eða nóttu á að funda. Það eru eðlileg vinnubrögð. Ég vil vekja athygli á því að það er nokkuð um liðið frá því að forseti hefur fundað með þingflokksformönnum og ég hefði talið að eðlilegt hefði verið áður en til þessarar atkvæðagreiðslu kæmi að við hefðum átt slíkan fund til að geta komið betra skipulagi á þingstörfin og þau færu fram í meiri sátt (Forseti hringir.) en verið hefur undanfarna daga.