138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði á móti því að vera með kvöldfund en lýsi því yfir að ef það er vilji meiri hluta þingmanna að vera með kvöldfund mun ég að sjálfsögðu sinna því eins og mér ber skylda til. Ég óska þess svo sannarlega að aðrir þingmenn geri það einnig og eigi við okkur hreinskiptin samtöl um þau mál sem verða á dagskrá.

Ég vil einnig minnast á það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það er ágæt leið að kalla saman þingflokksformenn til að hafa samráð, í ljósi þess að oft er rætt um samráð og samvinnu í þessum ræðustóli og forsetastóli, fara þá yfir dagskrá dagsins og tímasetningar og jafnvel einhverja daga fram í tímann í staðinn fyrir að hafa uppi þau vinnubrögð að hér komi þingmenn jafnvel að morgni og viti lítið hvað gerist allan daginn.