138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að stjórnarandstaðan hefur lýst því yfir að hún sé reiðubúin að styðja það að dagskrá sé breytt og að jafnvel mjög brýn mál fái frekar litla umræðu til að hægt sé að koma þeim til nefndar. En, frú forseti, ég frábið mér það að ég standi t.d. í vegi fyrir því að brýn mál komist áfram vegna þess að þau hafa ekki legið frammi til kynningar, þau eru nýkomin til þingsins. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna, frú forseti, ef ríkisstjórnin kemur allt of seint fram með þessi brýnu mál, sem er hreinlega staðreynd og allir geta séð. En ég ítreka, frú forseti, að það er hægt að hliðra til dagskrá til að koma þessum málum að. Það er hægt að gera það án þess að fresta því stóra máli sem við höfum annars rætt töluvert mikið. Við hljótum að geta fundið lendingu í því hvenær við ætlum að ljúka því máli (Forseti hringir.) ef við einbeitum okkur.