138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með þeim hætti sem hún kýs. En ég tel að núna fari stjórnarandstaðan fram með grímulausu ofbeldi. Ég segi þetta vegna þess að nú hef ég lesið það í fjölmiðlum að einstakir þingmenn segjast vera í málþófi bókstaflega til að tefja framgang málsins. Það las ég í morgun og í gærkvöldi.

Það vill svo til að við búum við kerfi þar sem er þingbundin ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur meiri hluta á Alþingi Íslendinga. Hún var kosin af meiri hluta Íslendinga. Hún hefur sinn rétt til að koma fram þeim málum sem hún telur forgangsmál og nauðsynleg. Þessi ríkisstjórn telur mjög nauðsynlegt og brýnt fyrir endurreisnina að þetta mál sé frá og það sé samþykkt á Alþingi Íslendinga. Hún hefur fært fyrir því mörg rök og þá er það grímulaust ofbeldi af stjórnarandstöðunni þegar hún segir bókstaflega að hún sé að tefja þetta mál með skipulegu málþófi en það hefur stjórnarandstaðan nú upplýst opinberlega.