138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði nokkur orð um fundarstjórn forseta. Hann nefndi að hér ætti sér stað grímulaust ofbeldi. Það var grímulaust ofbeldi af hálfu meiri hlutans að þetta mál sem við munum ræða á eftir átti að samþykkja óséð. Það var grímulaust ofbeldi að hér var gögnum leynt í langan tíma. (Gripið fram í.) Það var grímulaust ofbeldi að neyða þingmenn stjórnarmeirihlutans til að ganga í takt. Það var grímulaust ofbeldi að hóta stjórnarslitum. Það var grímulaust ofbeldi að neyða ráðherra til að segja af sér. Það er grímulaust ofbeldi að neyða Alþingi Íslendinga, lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, til að stimpla þetta mál án þess að á því megi verða breytingar.

Nú er því hótað (Forseti hringir.) að breyta eigi þingskapalögum til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir lýðræðislega umræðu. Hvað er næst, virðulegi forseti?