138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta og ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra segir að hann sé sammála því að ég hafi málfrelsi og það er gott að eiga þann stuðning vísan. Hins vegar er mikill tvískinnungur í málflutningi hans þar sem hann heldur því jafnframt fram að ég sé að beita einhverju ofbeldi. Ég hef áhyggjur, frú forseti, af því að þetta frumvarp sem við ræðum, Icesave-frumvarpið, verði að veruleika. Ég skal leggja mig alla fram eins og ég hef gert í umræðunni um að fá stjórnarþingmenn til að kynna sér þetta mál en hlýða ekki í blindni leiðtogum flokka sinna um að greiða atkvæði eins og þeir segja þeim að greiða atkvæði.

Frú forseti. Ég frábið mér hótanir frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að nú skuli breyta þingsköpum svo ég fái ekki að segja mitt í þessu máli.