138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að því þegar hæstv. samgönguráðherra kemur og tekur þátt í umræðum um fundarstjórn forseta. Hann tekur ekki þátt í umræðum að öðru leyti þannig að það er þá skárra en ekkert að hafa hann í þeirri umræðu. Hæstv. samgönguráðherra hefur t.d. ekki komið í ræðu í málinu til að útskýra fyrir okkur með hvaða rökum hann styður það frumvarp sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Hann hefur ekki gert það. Það er dálítið merkilegt að hæstv. samgönguráðherra er algerlega fastur í októbermánuði 2008. (Gripið fram í.) Síðan hefur heilmikið gerst í málinu, hæstv. samgönguráðherra. Við stöndum frammi fyrir frumvarpi sem þarf að afgreiða og við þurfum að taka efnislega og málefnalega afstöðu til þess. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hver eru hans rök fyrir því að við eigum að samþykkja þetta frumvarp? Hver eru gagnrök hans vegna þeirra athugasemda sem komið hafa fram í umræðum undanfarna daga? Ég hef ekki heyrt þau.

Sama á við um flesta hv. stjórnarliða. Þeir hafa komið hérna, látið reka sig (Forseti hringir.) eins og trippi en ekki svarað með rökum fyrir skoðanir sínar í þessum málum.