138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta málþóf er farið að ganga ansi langt. Það eru brýnir þjóðarhagsmunir að ljúka þessu máli (Gripið fram í: Já, er það?) og hörmulegt að sjá hvernig (Gripið fram í.) málþófsflokkarnir láta í þingsal. Hér er mikið kvartað yfir því af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fulltrúar stjórnarflokkanna tali ekki efnislega í málinu. Okkur er nokkur vorkunn því að ekki viljum við setja úr skorðum hinar glæsilegu vaktatöflur sem stjórnarandstaðan hefur stillt upp (Gripið fram í.) til að tryggja (Gripið fram í.) málþófsliði sínu hæfilegan hvíldartíma. (Gripið fram í.) Við viljum auðvitað ekki skekkja þessa fallegu mynd, þessa undarlegu mynd af lýðræðislegu þingstarfi (Gripið fram í.) sem stjórnarandstaðan hefur verið að stilla upp. Við viljum auðvitað leyfa stjórnarandstöðunni að halda áfram að láta eins og hún sé að tala efnislega um málið því að (Gripið fram í.) þá hlýtur henni að líða betur. (JónG: Þú hefur ekkert að segja af viti hvort eð er, kallinn minn.)