138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:56]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur í ræðu sinni nú og í fyrri ræðum farið yfir mjög marga þætti sem eru umdeildir og í mikilli óvissu og það vitum við öll. Í mínum huga er það svo að við stöndum enn þá í efnahagshruni sem er stærra og meira en nokkur Íslendingur gat gert sér grein fyrir að við gætum lent í, enda var því afneitað alveg fram á síðustu stundu að nokkuð slíkt gæti gerst þótt staðreyndin blasti við okkur. Við erum ekki enn þá búin að vinna okkur út úr þessu hruni. Það sér ekki enn í land. Við stöndum frammi fyrir því að leysa þessa deilu, sem er í raun milliríkjadeila eins og hún hefur þróast. Að koma hjólum efnahagslífsins í gang, að standa vörð um að það hrynji ekki meira en þegar er hrunið, byggir að hluta á því að við getum samið um þetta mál eða komist út úr þessu máli með einum eða öðrum hætti. Við fáum núna skilaboð frá Norræna fjárfestingarbankanum, frá mismunandi aðilum, en við vitum í raun að við höfum verið undir þvingunum undanfarið. Við erum eyland og við fáum hvergi stuðning nema frá frændum okkar í Færeyjum. Við fáum stuðning frá vinum okkar á Norðurlöndunum að því tilskildu að við klárum þetta mál. Telur hv. þingmaður að það sé áhættunnar virði að við drögum það að leysa þetta mál miðað við aðra þætti sögunnar?