138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað á að segja við ræðu sem hér hefur verið flutt, jafnjákvæð, innihaldsrík og lausnamiðuð og hún var. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ítrekað kallað fram í eða komið í ræðustól og sagt að menn hafi ekki skoðað málin, þeir hafi helst ekkert vit á því, þeir hafi einhverja annarlega löngun til að taka á sig þessar byrðar. Ég ætla að biðjast undan því að sitja undir slíkum orðræðum frá hv. þingmanni.

Hér var rætt um upphæðina. Var eitthvað nýtt í henni? Hér er rætt um gjaldeyrismálin. Var eitthvað nýtt í því? Áhrif gjaldeyrishafta. Var eitthvað nýtt í því? Spuni ríkisstjórnarinnar? Var eitthvað nýtt í þeirri orðræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þekkir spuna manna best og heldur alltaf að allir aðrir séu að beita spuna af því að hann hefur notað hann sjálfur? (Gripið fram í.) Það gengur svo gjörsamlega fram af manni sá hroki sem kemur fram í orðræðunni við okkur sem höfum eytt í þetta fleiri hundruð klukkutímum, að við séum að kalla eftir vinum og félögum. Að maður eins og Eiríkur Tómasson sem hefur unnið með okkur langtímum saman, vinur og félagi, gangi væntanlega erinda erlendra stjórnvalda í málum eins og hér hafa átt sér stað. Það gengur svo fram af mér hvernig menn tala í þinginu og eru komnir upp í 39 liði og þeir eru margir hverjir ekki ítarlegri en þetta.

Mig langar líka að hv. þingmaður svari því einfaldlega hér og nú þegar við ræðum fjárlög sem við glímum nú við: Er eitthvað af þeim málum sem við glímum við núna í fjárlögum vegna Icesave? Er eitthvað af því sem hann nefndi áðan vegna Icesave? Ég skora á hann að koma með tillögurnar sem hann auglýsti að hann hefði varðandi niðurskurð. Við munum þiggja öll góð ráð varðandi það að stilla samfélaginu upp að nýju miðað við raunverulegt umhverfi, miðað við það sem við höfum efni á og (Forseti hringir.) miðað við forsendur gersamlega án Icesave.