138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvaða niðurskurðartillögur hv. þm. Guðbjartur Hannesson er að tala um og ég veit ekki heldur hvers vegna hann veltir upp nafni Eiríks Tómassonar. (Gripið fram í.) Væntanlega vegna þess að hann er einn af þeim mönnum sem hv. þingmaður fékk á fund fjárlaganefndar til að ræða hvort það frumvarp sem hér er til umræðu kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá. Það er reyndar rétt sem hv. þingmaður nefnir að Eiríkur Tómasson hefur unnið fyrir nefndina töluvert lengi og mikið í þessu máli.

Það sem er undarlegast í málflutningi hv. þingmanns er að hann skuli halda því fram að það sé ekkert nýtt í því hver séu áhrif hruns gengisins. Hv. þingmaður segist gera sér grein fyrir því. Engu að síður ætlar hann að fallast á þetta samkomulag. Hann segir að það sé ekkert nýtt í því hver kostnaðurinn sé og virðist hafa gert sér fulla grein fyrir því. Engu að síður ætlar hann að fallast á þetta. Þingmaðurinn segist vera búinn að heyra allt saman en ætlar samt að fallast á þetta. Hvaða skýring getur verið á því? Það hlýtur að vera fullkomin sjálfsblekking, eins og birtist í orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar hann fullyrti að það sem hér væri lagt fram, fyrirvararnir eftir að Bretar og Hollendingar fóru í gegnum málið, væru svipaðir og jafnvel betri en þeir voru á sínum tíma áður en lögfræðingar Breta og Hollendinga tættu þá í sig. Þeir væru núna betri. Bretar og Hollendingar væru búnir að gæta hagsmuna okkar betur en fjárlaganefnd, væntanlega undir forustu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, gerði. Hvernig á að vera hægt að taka mark á því þegar hv. þingmaður kemur upp og segist vera búinn að taka tillit til allra efnahagslegra afleiðinga þessa máls, maður sem telur að lögmenn Breta og Hollendinga, eftir að hafa lokið við að fara í gegnum alla fyrirvarana og rústa þá, gæti hagsmuna Íslendinga betur en fjárlaganefnd undir forustu hans?