138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er ekki rökvilla vegna þess að það var eitt hlutverk sem hollenska og breska eftirlitið höfðu sem það íslenska hafði ekki og það var neytendaverndin. Það hefði verið hægt að segja að vegna neytendasjónarmiða væri ekki hægt að leyfa internet-reikninga sem byðu svona háa vexti vegna þess að það væri talið of áhættusamt fyrir neytendur. Það hefði verið hægt. Þá hefði það verið það eina sem Landsbankinn hefði gert, hann hefði getað stofnað útibúið, það hefði ekki verið neitt mál. En hann hefði ekki getað opnað innlánsreikningana í landinu og það hefði engan veginn verið vegið að því eða gefið í skyn að hann væri fjárhagslega óburðugur til að gera þetta.

Spurningin er þá, hefði ekki verið betri leið að setja Landsbankann á höfuðið með því að svipta hann starfsleyfi? Í því sambandi verður að hafa eitt í huga og það er að endurskoðunarfyrirtæki, matsfyrirtæki, Fjármálaeftirlitið, markaðurinn og aðrir, allir sögðu: Það er í góðu lagi með þennan banka. Eftir á að hyggja hefðum við getað gert svo margt til að minnka það tjón sem varð en eitt af því sem við hefðum ekki getað gert var að setja Landsbankann á hausinn. Ég er alveg sannfærður um að það hefði ekki verið betri leið og ekki raunverulegri leið og það var heldur ekki raunverulegur valkostur, það var ekkert sem gaf tilefni til þess að fara út í svo drastískar aðgerðir. Enginn þeirra aðila sem ég nefndi áðan lýsti áhyggjum af því að Landsbankinn væri að fara á hausinn. Meira að segja Landsbankinn fékk hæstu einkunn á markaðnum frá fjárfestum vegna internet-reikninganna í Hollandi og Bretlandi. Moody's, Standard & Poor's og Fitch verðlaunuðu þá með hæstu lánshæfismatseinkunninni af sömu ástæðum.