138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð varðandi tryggingarnar og fjármálaeftirlit, hver ber ábyrgð á hverju og slíkt. Nú virðist það vera ljóst að erlendir aðilar séu að eignast banka á Íslandi. Væntanlega gilda þá þær reglur sem á Íslandi gilda og íslenska fjármálaeftirlitið mun væntanlega hafa eftirlit með þeim banka sem er í erlendri eign en er íslenskt fyrirtæki, ef ég skil dæmið rétt. Það er ágætt ef hv. þingmaður gæti staðfest þetta.

Það hefur komið fram að ríkisstjórnin ábyrgist innstæður í bönkum á Íslandi sem þýðir þá væntanlega að ríkisstjórnin ábyrgist einnig allar innstæður í þessum banka sem verður í eigu erlendra aðila. Ég spyr: Er það eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?

Síðan langar mig að velta því upp að nú hefur Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, lýst yfir að Bretar muni ekki ábyrgjast innstæður utan lögsögu breska fjármálaeftirlitsins, ég held að hann hafi orðað það þannig. Ég velti því fyrir mér hvað það þýðir. Er það ekki í raun staðfesting á því að Íslendingum og íslenska ríkinu ber þá ekki að ábyrgjast þær innstæður og þá reikninga sem voru í Bretlandi og Hollandi? Ég fæ ekki skilið þessi orð öðruvísi og velti fyrir mér hvers vegna annað eigi að gilda um Ísland.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að hafa dregið fram ábyrgð Samfylkingarinnar í þessu máli, verandi með viðskiptaráðherra, Fjármálaeftirlitið og varaformann Seðlabankans á sínum snærum.