138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta atriði, er varðar eignarhaldið á bönkunum. Er ekki sjálfsagt mál og í raun mikilvægt að upplýsa það hverjir eru í raun að eignast og hverjir eiga bankann, þennan nýja Arion banka í dag, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún ábyrgist allar innstæður í þeim banka líkt og öðrum, ef ég hef skilið þetta rétt? Nú hef ég ekki hugmynd um frekar en aðrir hverjir eiga þennan Arion banka í dag, þar eru hugsanlega einhverjir hrægammar eða hvernig á að orða það, einhverjir sem munu reyna að hámarka gróða sinn og mögulega hverfa svo út úr þeim rekstri. Er ekki mikilvægt að upplýsa um hvaða aðilar þetta eru og þá um leið hvort þeir eru traustir, í ljósi þess að ríkisvaldið hefur lýst því yfir að það muni ábyrgjast innstæður í bönkum á Íslandi?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, ég veit ekki hvort hann nær að svara því á þeim stutta tíma sem hann hefur, en ég hef miklar áhyggjur af því ef greiða á þessar greiðslur í erlendri mynt. Það var sett inn í neyðarlögin, og ég hef reynt að spyrja um þetta áður, að hægt væri að greiða í íslenskum krónum. Það hefur væntanlega ekki verið gert af tilviljun einni saman og mig langar að biðja hv. þingmann ef hann hefur tíma til að rifja það upp fyrir okkur af hverju það var gert en meginspurningin er varðandi þá sem eiga þennan banka.