138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góðar spurningar. Í fyrsta lagi hvað varðar eignarhaldið þá er ég algerlega staðfastur í því að greina eigi frá eignarhaldi á Íslandsbanka og Arion banka sem eru orðnir í eigu kröfuhafa. Við verðum að vita hverjir þessir kröfuhafar eru, a.m.k. stærsti hlutinn sem myndar einhvers konar hóp kjölfestufjárfesta.

Vissulega hefur maður áhyggjur af því hverjir það gætu verið sem eiga þetta og ef það er t.d. mikið af vogunarsjóðum sem mynda þarna stóran hlut þá geta langtímahagsmunir kannski verið bornir fyrir borð. Það er eitt af hlutverkum Fjármálaeftirlitsins að það verður að samþykkja eigendurna, að þeir hafi þann fjárhagslega styrkleika sem þarf til að fara með eignarhald í bönkum þegar um stóra hluthafa er að ræða. Það verður eflaust farið yfir það og þeir látnir uppfylla þau skilyrði sem til þarf. Með öðrum orðum, það má ekki hver sem er eiga stóran hlut í banka.

Í þriðja lagi var hugsunin með því að greiða út í erlendri mynt — og þetta var sett inn í neyðarlögin vegna þess að menn sáu fyrir sér að það gæti einfaldlega verið erfitt að þurfa að greiða upp í erlendri mynt eins og nú á að gera vegna gjaldeyristekna og annars slíks. Svo var líka alltaf í bakhöfðinu að ef allt færi á versta veg væri a.m.k. hægt að eyða þessu með verðbólgu.