138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hélt mikla hvatningarræðu fyrir meiri hlutann, ræðu sem var eingöngu til þess fallin að hvetja meiri hlutann til að halda áfram að kúga minni hlutann á Alþingi, eins og ég skildi hana. En það sem var kannski alvarlegast í ræðunni var að hann er ekki reiðubúinn að bakka með hræðsluáróðurinn jafnvel þó að allt sem hann hefur sagt nú í nokkra mánuði hafi verið hrakið. Ekkert af því stórhættulega sem átti að koma fyrir íslenskt efnahagslíf hefur gengið eftir.

Hæstv. fjármálaráðherra kom með hótanir um eitthvað óskilgreint, eitthvað sem enginn veit hvað er og enginn getur ímyndað sér hvað er. Jafnvel barn er ekki með það frjótt ímyndunarafl að það geti búið til eitthvað hræðandi úr orðum hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil spyrja hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur hvort hún telji ekki að fara verði betur yfir orð hæstv. fjármálaráðherra og hvort honum beri ekki skylda til þess sem nánast einvaldi á Íslandi, nánast eina starfandi ráðherranum, þannig virðist það a.m.k. vera, að upplýsa þjóðina um af hverju skattpeningar 80 þúsund Íslendinga næstu sjö árin fari bara í það að greiða niður vexti af Icesave-láninu.